2.3.2008 | 12:46
Hippatímabilið
Ég las með áfergju greinina í Mogganum í morgun um 68-kynslóðina eða hippatímabilið. Ég setti sjálfa mig í spor viðmælenda og tók að svara spurningunum eins og ég hefði svarað ef ég hefði verið beðin um það.
1. Varst þú hippi kringum árið 1968? Ég hef aldrei litið á sjálfa mig sem hippa en ég klæddist hippalegum fötum og tónlistin á þessum tíma átti hug minn allan. Bítlarnir höfðu mikil áhrif á mig og eins aðrir sem sungu um frelsi, frið og ást. Ég fíla enn í botn lagið sem Scott Mc Kenzie söng um blómabörnin í San Fransisco. En ég fór ekki í mótmælagöngur eða var með uppþot af neinu tagi. Það var ekki fyrr en 1975 sem kvennafrídagurinn var og þá var ég auðvitað með.
2. Hvað varst þú að gera árið 1968 og hvað er þér minnisstæðast frá því ári? Ég var 18 ára og var komin í Kennaraskólann, vann í fiski um sumarið og einnig á leikskóla. Ég var að undirbúa mig fyrir lífsstarfið og farin að kíkja alvarlega á strákana. Fann minn þarna um vorið. En sumarið áður var ég tvo mánuði í London, sumarið sem Bítlarnir sungu All you need is love. Ég man að kennslukonan mín skrifaði textann á töfluna og hneykslaðist á hversu lítilfenglegur hann væri. All yoou need is love, love is all you need. Mér finnst textinn frábær og fannst það strax en það var ekki að marka kennslukonuna, hún var í krimplíndragt. Bítlarnir gáfu líka út þetta sumar St. Peppers plötuna og keypti ég hana á sjálfu Carnaby srtreet.
3.Hvað hreif þig mest við hugsjónir hippanna? Friðarboðskapurinn og frelsið.
4. Hver var helsta fyrirmynd þín árið 1968. Af hverju?Í sambandi við tísku var að Twiggy. Klippingin hennar og augnfarðinn var geggjað. Ég reyndi eins og gat að vera eins og hún. Náði samt aldrei vextinum. Mary Quant var aðalfatahönnuðrinn. Stuttu pilsin slógu í gegn. Það fólust viss mótmæli í að ganga í þeim. Þau stríddu gegn viðteknum reglum. Maður byrjaði að bretta upp á strenginn í mittinu en þegar það voru komnir tveir eða þrír hringir í mittið var farið að klippa neðan af pilsunum. Tónlistin var mjög stór þáttur í lífinu. Bítlarnir trónuðu í mínum huga á toppnum þó svo að ég væri í raun alæta á tónlist.
5. Hvað er það hippalegasta sem þú hefur gert fyrr og síðar?Ég reyndi einu sinni að breyta heimilinu mínu í kommúnu þannig að hver átti að sjá um sig eða allir um alla. Ég var að mótmæla húsmóðurhlutverkinu. Ég gafst upp eftir rúma viku, því þá var ekki einn diskur hreinn á heimilinu, engin flík hrein og allt á kafi í ryki og drullu. Ég reyndi líka eitt sinn að henda brjóstahaldaranum en þegar mér var sagt að konur sem gætu haldið blýanti undir brjóstinu mættu ekki vera brjósthaldaralausar vissi ég að sá draumur væri úti því ég gat auðveldlega haldið heilli tylft af blýöntum þarna
6. Hvernig sást þú í stórum dráttum fyrir þér árið 1968 að líf þitt myndi þróast til dagsins í dag og þú yrðir staddir í tilverunni árið 2008? Ég hef aldrei getað séð langt fram í tímann. Ég held samt að við Simmi minn höfum ætlað okkur, á unglinsárunum, að hafa það gott og vera búin að koma okkur vel fyrir um fimmtugt. Þessir draumur tengdist peningum að einhverju leyti. Nú höfum við það gott þó að peningar komi ekki við sögu. Ég er nær hippahugsjóninni núna en ég hef líklega ætlað mér.
7. Hvaða lífsmottó vildir þú helst geta haft í hávegum? Ég er búin að læra það að njóta lífsins NÚNA. Ég vildi að ég gæti kennt ungu fólki það að njóta augnabliksins. Lífið er núna.
8. Hver er arfleifð hippanna eða 68-kynslóðarinnar? Hipparnir skildu eftir sig hugsjónina um betri heim. Þó að efnishyggjan sé efst á baugi þessa stundina þá lifir viðhorf þeirra.
9. Hvað lifir enn af 68-hugsjóninni og lífstílnum hjá sjálfum þér? Tónlistin lifir enn og það að vera góður við náungann.
Krakkarnir mínir voru eitt sinn að spjalla við mig um þetta tímabil og ég var dálítið hissa á hve mikið þeir vissu um hvað var að gerast á þessum tíma og að þeir gerðu sér betur grein fyrir ýmsu en ég. Munurinn er sá að krakkarnir voru búnir að lesa um hippana og hugsjónir þeirra, vafalaust eitthvað sem sagnfræðingar hafa skrifað. En þegar maður er sjálfur á staðnum skilur maður ekki alveg allt. Það er ekki fyrr en tíminn hefur liðið og söguskýringin kemur sem hlutir skýrast fyrir manni.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:52 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir ábendinguna!
Hver veit nema að maður mæti!
Guðrún S Sigurðardóttir, 2.3.2008 kl. 13:33
Sæl vinkona. Sendu mér mail því ég er búin að týna E-mail adressunni þinni og get því ekki sent þér neina brandara. Alveg ómöglegt að hafa þig ekki inni á póstlistanum mínum.
kveðja
Eygló Lilja Gränz (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 12:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.