24.2.2008 | 21:17
Smáfuglar fagrir
Í fyrravor gat ég ekki farið út á lóð, í einhvern tíma, því ég sá út um stofugluggann hjá mér að það lá dauður fugl á miðri flötinni. Ekkert í heimi er ógeðslegra en dauður fugl. Ég varð að bíða eftir að Simmi minn kæmi heim af sjónum til að fjarlægja viðbjóðinn.
Ég vil hafa fugla í vissri fjarlægð. Þeir eru flottir á flugi og fuglasöngur er fallegur. En þeir mega ekki koma nálægt mér. Ég hef einhvern tíma haldið á fugli og það var hræðilega erfitt. Að finna fyrir fjöðrunum og beinunum, halda að maður taki jafnvel það fast á þeim að fingurnir snerti innyflin er tilfinning sem ég ræð ekki við. Hrollur. Bara hrollur.
Það hefur komið fyrir, oftar en einu sinni, að fugl hefur komið inn í húsið mitt. Í eitt skiptið gerðist það á aðfangadagskvöld, rétt fyrir matinn. Fuglinn varð ær og ég brjáluð. Simmi og krakkarnir komu greyinu út. Í annað skiptið var ég ein heima og hringdi dauðskelkuð í Rut systur mína, sem kom í rólegheitum yfir til mín með skóflu, mokaði snjónum frá svalahurðinni svo ég gæti opnað hana og hleypt kvikindinu út. Mér hafði hvorki hugkvæmst að opna hurð né glugga. Ég bara gólaði.
Nú hef ég í nokkur skipti gefið fuglunum að borða af því ég held að þeir séu svo svangir. Það klingdi í eyrum manns fyrir nokkrum árum Gefið smáfuglunum og það hefur þessi áhrif á mig í dag að ég er sífellt hlaupandi út á lóð með alls konar góðgæti handa kvikindunum.
Ég held að það sé betra að gefa þeim að éta svo þeir geti hypjað sig heldur en að þeir detti niður dauðir úr hungri á lóðina mína.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 25.2.2008 kl. 09:11 | Facebook
Athugasemdir
Sumir fuglar eru nú alveg einstaklega góðir dauðir...góðir á bragðið....ha?
Sigþrúður Harðardóttir, 26.2.2008 kl. 17:55
Já, reyndar. Én ég vil helst ekki sjá þá fyrr en vel steikta!
Guðrún S Sigurðardóttir, 26.2.2008 kl. 19:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.