23.2.2008 | 15:44
Leikhúsferð
"Ég er búin að kaupa miða í leikhúsið fyrir okkur þann 22. febrúar," sagði svilkona mín við mig um daginn.
"Frábært, "sagði ég "hvað ætlum við að sjá?"
"Ég man ekki alveg hvað leikritið heitir en ég er búin að lesa dóma um það og það lofar góðu."
Ég treysti þessari svilkonu minni fullkomlega til þess að velja leikrit fyrir okkur því hún fer miklu oftar í leikhúsið en ég. Mér finnst mjög gaman að fara í leikhús en ég hef aldrei rænu á að skipulegga leikhúsferð en það þarf auðvitað að gera það með góðum fyrirvara. Þess vegna segi ég að það sé gott að eiga góða að sem sjá um hlutina fyrir mann.
Við fórum í gærkvöldi og sáum Vígaguðinn sem sýndur er á Smíðaverkstæðinu. Þetta er alveg frábært stykki eftir Yasmina Reza sem mun vera einn af vinsælli leikritahöfundum samtímans.
Leikritið fjallar um tvenn hjón sem hittast heima hjá öðru parinu til þess að tala um atburð sem henti 11 ára gamla syni þeirra. Sonur annarra hjónanna lamdi hinn með priki og fannst mömmunni, sem á þann drenginn sem var laminn, að það þyrfti að útkljá málið. Það kemur svo í ljós að ekki er allt sem sýnist því undir fáguðu yfirborðinu leynist ýmislegt sem kemur í ljós þegar hjónin fara að tala saman.
Á köflum er leikritið bráðfyndið en fær mann líka til þess að hugsa um hve stutt er á milli siðmenntaðrar framkomu og þess að fólk sleppi sér og hleypi jafnvel villimanninum út.
Minnti mig á partýin í gamla daga.
Ég bíð núna spennt eftir að svilkona mín hringi aftur og tilkynni mér um næsta leikrit.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég var einmitt á Flónni í gær og skemmti mér alveg drottningarlega !! Grét hreinlega úr hlátri !!!
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 24.2.2008 kl. 09:52
Hvernig væri að maður skellti sér norður í leikhúsið? Ekki vitlaus hugmynd!
Guðrún S Sigurðardóttir, 24.2.2008 kl. 21:25
Fékk miða á laugardagskvöldið, seinni sýningu...
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 26.2.2008 kl. 23:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.