21.11.2007 | 18:38
Í heimsókn í Wales
Það var komin tími til að hitta yngsta barnabarnið svo við Simmi minn brugðum okkur til Wales um helgina. Sem betur fer flýgur Icelandair til Manchester en þaðan er tiltölulega stutt til Rosllanercrugog.
Lúkas Þorlákur kom hlaupandi í fangið á okkur á flugvellinum og mundi greinilega eftir okkur. Við höfðum ekki séð hann síðan í apríl. Honum fannst ekkert leiðinlegt að hafa okkur yfir helgina og pældi mikið í flugferðum á milli landa. Hann veit að hann á að fara í flugvél bráðum en the Jones´s ætla að vera hjá okkur yfir áramótin.
Samskipti okkar eru þannig að við tölum íslensku við hann og hann talar ensku við okkur. Hann skilur íslenskuna alveg þó hann noti ekki nema eitt og eitt orð, eins og tölva, kaupa og kúka. Hann hljóðgreinir íslenskuna ekki alveg rétt því ef hann er látinn segja eitthvað á íslensku verður það oftast með enskum hreim. Hann á meira að segja erfitt með að bera seinna nafnið sitt rétt fram. Það er gaman að fylgjast með máltökunni hjá honum og velta fyrir sér hvernig þetta gerist allt saman. Lúkas er svo sannarlega tvítyngdur. Nú þyrfti ég bara að fá að hafa hann hjá mér í nokkrar vikur og sjá hvað gerðist með máltökuna þá.
Lúkas fór með okkur, ömmu og afa, í labbitúr um Wrexham á meðan mamma hans var í vinnunni. Hann fór með okkur á veitingahús og var auðvitað stilltur og prúður og borðaði eina matinn sem honum finnst boðlegur, bresk pylsa. Þegar hann hafði "had enough" lék hann sér að gasblöðrunni sem afi hafði keypt handa honum. Við létum sem við sæjum ekki að hann var stundum fyrir þjónunum því það var svo gaman að horfa á hann hoppa upp eftir blöðrunni þegar hún sveif til lofts. Við vorum ákveðin í því að þykjast ekki skilja ensku ef einhver segði eitthvað.
Lúkas sýndi okkur minnismerki um kolanámumenn á rölti okkar um hinn mjög svo skemmtilega miðbæ í Wrexham.
Á vegi okkar urðu leiktæki sem Lúkas vildi auðvitað prófa og hvað gera ekki amma og afi fyrir litla strákinn sinn. Hann skemmti sér konunglega við að keyra brunaliðsbíl.
Hann ratar í "the red toyshop" og þangað var ferðinni heitið. Hann vissi að hann mátti velja sér dót og valdi hann sér tvo litla bíla, örugglaga það ódýrasta í búðinni en þessi litli ungi maður veit alveg hvað vill.
Hann svaf í "millinu" hjá okkur þessar þrjár nætur sem við vorum hjá the Jones´s. Það er nú ekki leiðinlegt að heyra í myrkrinu allt í einu upp úr þurru, þegar litli maðurinn á að vera sofnaður:"Amma, I love you."
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Það er gaman að þessu....
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 23.11.2007 kl. 23:54
Ohhh
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 24.11.2007 kl. 14:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.