Ísfólkið á sólarströnd

Það var skemmtilegur þáttur um Margit Sandemo í sjónvarpinu í kvöld. Hún er ótrúlega afkastamikill rithöfundur. Ég man ekki eftir að hafa lesið neitt eftir hana nema Ísfólkið. Eftir að ég keypti fyrstu bókina á sínum tíma var ekki aftur snúið. Ísfólkið heillaði svo sannarlega. Það var erfitt að bíða eftir næstu bók svo heltekin var ég af sögunni.

Ég athugaði fyrir nokkrum árum hvenær bækurnar fóru að koma út á íslensku og ef ég man rétt var það 1982. Þá var Svava Rán 8 ára gömull og drakk sögurnar í sig. Las hverja bók mörgum sinnum. Á þeim tíma sá ég ekkert athugvert við það að krakkinn læsi bækurnar en ég skildi ekki síðar hvernig mér datt í hug að leyfa henni að lesa þetta svona ungri.  Ég man samt að ég var viss um að við lestur bókanna lærði hún heilmikið í sögu. Það kom reyndar á daginn þegar hún fór að kenna í grunnskóla. Þá hjálpaði henni að hafa lesið Ísfólkið.

1987 fórum við gamli minn í þriggja vikna sólarlandaferð. Þá hafði ég tekið mér pásu í lestri Ísfólksins. Ég varð eitthvað leið á yfirskilvitlegum atburðum og fannst komið nóg. Ég keypti samt alltaf bækurnar því Svava Rán varð að fá Ísfólksskammtinn sinn. Það fór því svo að á þessa sólarströnd var í farteski okkar gamla nokkrar uppsafnaðar ólesnar bækur.

Einn daginn kom fararstjórinn í  heimsókn til okkar. Við vorum langt frá hinum Íslendingunum og vildi Þórunn fararstjóri athuga hvernig við hefðum það. Með henni var eignmaður hennar, Stefán þáverandi Þjóðleikhússtjóri. Við vorum að koma af ströndinni með nokkrar Ísfólksbækur í gegnsærri strandtösku úr plasti. Þegar hjónun nálguðust okkur tók ég eftir að gamli minn fer að toga handklæði til og frá í töskunni svo lítið bar á og draga það yfir bækurnar.

Hann skammaðist sín svo fyrir lesefnið sem við vorum með að hann ætlaði að fela það fyrir sjálfum Þjóðleikhússtjóra.

Ég held að í dag skammist sín enginn fyrir að viðurkenna það að hafa gaman af sögunni um Ísfólkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband