Mismunur á lífeyri

Ég man eftir Guðna Ágústssyni á sveitaböllunum í den. Hann er líklega árinu eldri en ég. Við höfum bæði unnið fyrir hið opinbera mest alla ævina. Bæði að búa betur í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Hann hætti í vinnunni, ófarvarandis um daginn. Ekki ég.

Hann hefur miklu hærri laun en ég og hann mun hækka um 200 þúsund þegar hann verður sextugur.

Hann mun njóta góðs af eftirlaunafrumvarpinu sem var sniðið handa Davíð.

Ég er farin að íhuga hvenær ég hætti í vinnunni. Ég veit að ég get ekki hætt þegar ég verð sextug af því launin mín munu lækka svo mikið við það eitt að fara á lífeyri.

Er skrítið að maður tuði?

Og Ingibjörg Sólrún sem lofaði að koma eftirlaunabullinu frá.


Óraunverulegur draumur

Í fantasíunni í framtíðinni

sé ég fallega liti, birtu og gleði

Í veruleikanum virði ég fyrir mér

vonleysi, reiði og kvíða

Ég vildi að ég gæti horfið

inn í fantasíuna


Friðsæl mótmæli

Við, Simmi minn, vorum á Austurvelli í gær á mótmælafundi. Við urðum dálítið hissa þegar við horfðum á sjónvarpsfréttir í gærkvöldi og komumst að því að þar hefðu orðið einhver læti. Þau fóru alveg fram hjá okkur.

Við urðum jú vör við hávaðann og reykspólunina frá mótórhjólagæjunum en þeir létu Alþingishúsið hverfa í reyk rétt áður en fundur hófst. Það var tilkomumikið, ég viðurkenni það. Þeir voru ekki á vegum þeirra sem skipulögðu fundinn. Hörður Torfa sagði að þeir hefðu lofað að gera þetta ekki.

Við sáum líka strákinn sem dró Bónusfánann að húni. Hann truflaði fundinn þannig að það sem ræðumaður var að segja á meðan á fánadrættinum stóð fór fyrir ofan garð og neðan hjá flestum því það var dálítið fyndið að sjá Bónusfánann þarna við hún í nokkur augnablik.

Við misstum af fleiri uppákomum. En það gerðu fjölmiðlar greinilega ekki.

Ég held að þeir  hefðu frekar átt að fjalla um efni fundarins heldur en að koma með æsingafréttir af honum.

Fjölmiðlar bera ábyrgð.


Feluleikur

Ég heyrði því fleygt um daginn að pappírstætarar væru uppseldir á landinu.

Ég heyrði því líka fleygt að menn væru í óða önn að farga hörðu diskunum sínum.

Ætli það séu margir sem hafa eitthvað að fela?

Það skyldi þó aldrei vera.


Spilling

Ég var að vona að við mér blasti eitthvað nýtt þegar ég kíkti inn á einkabankann minn í dag.

En því var nú ekki að heilsa.

Engum hafði hugkvæmst að afskrifa skuldirnar mínar.

Þær voru þarna og æptu á mig.

Mér finnst að það ætti jafnt yfir alla að ganga.

Ég er með svona jafnaðarhjarta.

Djöfuls spilling.

Spilling á Íslandi.

 


Núllum okkur

Bó leggur það til að við núllum okkur núna.

Minn maður hefur alltaf kunnað að orða hlutina.

Núllum okkur.

Mér líst vel á það.


Forsetinn má

Ég gekk fram hjá stórum, svörtum jeppa við Ráðhúsið, þegar ég fór í bókasafnið í fyrradag. Jeppinn var með allt öðruvísi númeraplötu en venjulegir bílar og þegar ég gekk fram fyrir bílinn sá ég íslenska fánann blakta á örðu frambrettinu. Ég spurði bókasafnskonuna hvort hún vissi hver væri á þessum bíl og hún vissi allt um það. Það var sjálfur forsetinn. Hann hafði komið við hjá henni og spjallað þar við krakka sem voru þar staddir. Ég missti af honum. Hann hefur verið einhvers staðar annars staðar í húsinu á  meðan ég valdi mér nýja bók að lesa.

Það var fyrst þegar ég kom heim sem ég fattaði hvað það var sem fór í pirrurnar á mér við þennan bíl. Hann var á akbrautinni en ekki á bílastæðinu og hann var í gangi á meðan forsetinn staldraði við.

Við hin drepum alltaf á bílunum okkar þegar við erum ekki að aka þeim.

Ætli forsetinn hafi ekki heyrt talað um mengun?


Sunnudagsleti

Sunnudagsleti

Fer á fætur þegar mér hentar

fæ mér morgunmat þegar mér hentar

fer í göngutúr þegar mér hentar

borða hádegismat þegar mér hentar

fer í sunnudagskaffi til mömmu og pabba þegar mér hentar

borða kvöldmat ef ég nenni

horfi á sjónvarpið eða les góða bók

spjalla við Simma minn

dreypi á rauðvíni

fer í rúmið þegar mér hentar

sunnudagsleti

sunnudagsleti þegar mér hentar

 


Öll á sama báti

"Nú erum við öll á sama báti.  Við þurfum bara að sigla í gegnum boðaföllin saman og komast á lygnan sjó."

Þetta er viðkvæðið þessa dagana. Ég er bara alls ekki á sama máli. Ég er hreint ekkert ánægð með það að vera á þessum báti. Ég bað aldrei um pláss. Ég var "sjanghæjuð" einn daginn og vaknaði um borð með fólki að drepast úr þynnku. Mér var ekki boðið til veislu með þessu fólki. Enda er ég ekki með þynnku og neita því að hjálpa partíljónunum að sigla bátnum. Þeir veisluglöðu skulu bara ná landi sjálfir.

Helvítis beinin kunna ekki að sigla og láta mig um það.

Aumingjarnir áttu að fara í skóla og læra eitthvað.


Yfir fjallið í leikhúsið

fólkið í blokkinniNú stundar maður menningarlífið af krafti.

Í gærkvöldi fór ég með leikhúsvinum mínum að sjá Fólkið í blokkinni. Alveg hreint ágætissýning og ágætisskemmtun.

Ég held að ég muni ekki ganga á milli fólks og segja: "Þú mátt ekki missa af þessari sýningu."

Þetta er ekki neitt tímamótaverk, held ég. Eða hvað veit ég um það, ég hef ekki hundsvit á leiklist þannig lagað séð.

Ég skemmti mér samt vel.

Þarna voru sett á svið brot úr lífi fólks sem býr í sömu blokk. Vandamálin eru margvísleg og allir eiga einhvers konar vanda við að stríða. Þarna var alkóhólistinn og meðvirka eiginkonan. 16 ára dóttir þeirra að finna sjálfa sig. Þroskaheftur bróðir hennar. Strákur skotinn í henni en réð ekki alveg við sjálfan sig og tilfinningarnar. Útigangskona, geðillur húsvörður, eiginmaður sem konan var farinn frá, pólsk nuddkona og fleiri litríkar persónur.

Geirfuglarnir sáu um spileríið og þeir stóðu sig náttúrlega vel eins og allir sem komu þarna fram. Ef ég ætti að nefna einhvern leikara sem stóð upp úr held ég að ég verði að nefna þann sem lék Óla, þann þroskahefta. Hann var magnaður.

Skemmtilegt kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband