Sniglaveisla

Nanna og Jara, vinkona hennar, voru að leika sér úti í garði í gærkvöldi þegar þær komu hlauðpandi inn til að segja okkur frá sniglum sem þær fundu í grasinu. Mér finnst sniglar ógeðslegir, þannig að ég hélt mér til hlés en Simmi setti djöfsana í krukku til að geta skoðað þá betur.
Þetta eru heljar hlunkar brúnir eða rauðbrúnir að lit og verða nokkrir sentimetrar að lengd þegar þeir teygja úr sér. Okkur datt Spánarsnigillinn í hug en ég held að hann sé svartur.
Þetta minnti okkur líka á "the slugs" sem við urðum vör við í fyrrasumar hjá Svövu Rán í Wales. "The slugs" koma upp á yfirborðið eftir að dimma tekur og skilja eftir sig slikju af einhverju ógeði hvar sem þeir fara. Og miðað við hraða snigilsins var oft ótrúlega mikil slikja á jörðinni þegar við komum út á morgnana. Einu sinni voru skórnir hans Simma míns þaktir þessu dularfulla efni. Honum var nær að gleyma þeim úti.
Simmi minn, hringdi áðan og bað mig um að halda lífi í sniglunum í krukkunni með því að gefa þeim hundasúrur eða eitthvað að borða. Hann var búinn að hringja í einhvern fræðing og sá vill fá sniglana.
Ég get ekki hugsað mér að opna krukkuna svo ég bíð eftir að stelpurnar vakni svo þær geti hjálpað mér.
Þær eru ekkert smeykar við kvikindin.

Læst úti

Ég þurfti að skjótast heim úr vinnunni til að redda smávegis. Sá þá að ruslafatan í eldhúsinu var full og tók ómeðvitaða ákvörðun að fara út með ruslið. Hurðin kom á eftir mér og skelltist í lás.

Fyrir tveimur dögum lenti Simmi minn í þessu sama nema hann var svo heppinn að stofuhurðin var, aldrei slíkum vant ólæst. Ég hreykti mér af því við hann að ég tæki alltaf úr lás þegar ég færi með ruslið því ég vissi það hurðin á það til að lokast af sjálfu sér.

Ég hefði betur ekki sagt neitt. Ég stóð þarna fyrir utan húsið mitt í djúpum skít. Við erum með varalykla alltaf geymda hjá mömmu en ég hafði þurft að nota þá í fyrradag og var ekki búin að skila þeim. Allir mínir lyklar voru inni í húsinu.

Venjulega eru allir gluggar lokaðir en tveimur mínútum áður en ég læstist úti hafði ég opnað gluggann í vaskahúsinu til að hleypa fersku lofti inn. Ég hef ekki opnað hann í marga mánuði. Þessi gluggi er það stór að maður getur skriðið inn um hann ef hann er opnaður upp á gátt.

Ég bankaði hjá nágranna sem kom með alls kyns græjur og tæki til að opna alveg og skreið meira að segja líka inn fyrir mig.

Það er gott að eiga góða nágranna.

 


Sólardagur.

Ó, hvað svona sólardagur gerir lífið léttara og einfaldara!

Einfaldara og léttara!

Léttara og skemmtilegra.

Og grillsteikina betri.

Ummm... sól, staldraðu við!


Morgunstund

Sveitarfélagið Ölfus var með starfsdag í gær fyrir alla þá sem vinna hjá sveitarfélaginu. Þetta var í þriðja skiptið sem þetta var gert. Fenginn er fyrirlesari og síðan boðið upp á snittur og drykk. Fyrirlestrarnir hafa gengið út á það að efla starfsanda á vinnustöðum.

Í gær talaði Edda Björgvins. Mér hefur alltaf fundist hún æðisleg gamanleikona. Ég hef líka einu sinni áður hlustað á hana fara með fyrirlestur. Ekki brást hún í gær. Hún talaði um það að dreifa góðum tilfinningum og sagði að það væri bannað að dreifa neikvæðum tilfinningum. Hún vill að við söfnum góðum tilfinningum í tilfinningabankann okkar. Eitt ráð hennar var að hugsa til þess þegar við hlógum síðast það mikið að við gátum ekki hætt að hlæja. Hún vill meina það að þegar við hlæjum myndum við endorfín sem er vímugjafi. Þegar maður hugsar um það þegar maður hló síðast fer maður aftur að hlæja.

Þetta er alveg satt hjá henni. Ég get ekki gert að því að ég skell upp úr í hvert sinn sem mér dettur í hug ákveðinn atburður í lífi mínu fyrir nokkrum vikum.

Ég lá enn í rúminu. Það hlýtur að hafa verið helgi. Simmi minn var farinn fram úr og var eitthvað að bauka við að klæða sig. Þá sé ég allt í einu útundan mér að önnur gardínan dregst frá glugganum. Ég reisti mig upp til að sjá hvernig í ósköpunum þetta gat átt sér stað því ég vissi að hann stóð ekki við gluggann að draga frá. Skýringin reyndist sú að þegar Simmi minn beygði sig eftir sokkunum þá festist gardínan á milli rasskinnanna á honum og þegar hann sneri sér til að taka seinni sokkinn upp þá dróst frá.

Hann dró frá með rassinum.


Páskahátíðin

Barnabörnin mín voru öll spurð að því af hverju við höldum heilaga páska og hérna eru svörin.

Dóttursonur minn, fimm ára sem elst upp í Bretaveldi, sagði:

"We must celebrate easter and eat all the chocolate so that Jesus dies." 

Sonardóttirin, átta ára sagði:

Í minningu þess að Jesú borðaði síðustu kvöldmáltíðina og var festur á kross og reis upp frá dauðum.

Sonarsonurinn, fimmtán ára, sagði ekki neitt en yppti öxlum og bað um að fá Biblíuna lánaða..


Kjúlli á bjórdós

"Ég er búinn að græja bjórdósina."

Ha, hvað, sagði ég annars hugar, við að telja lykkjurnar á prjóninum.

"Ætlarðu ekki að hafa grillaðan kjúlla á bjórdós í matinn?" spurði Simmi minn.

"Jú, elsku kallinn minn, er ekki allt reddí?"

"Jú, ég var að segja það. Ég er búinn að græja bjórdósina."

Þessi elska, sem ég dró upp að altarinu fyrir margt löngu síðan, var byrjaður að undirbúa kvöldmatinn, eins og hans er von og vísa, þrátt fyrir að hann vill helst ekki borða kjúlla.

En þegar kjúllinn er grillaður á hálffullri bjórdós tekur hann fullan þátt, allavega í undirbúningi.


Tapað og fundið

Ég týndi úrinu mínu mánudaginn 9. febrúar. Stundum set ég svona óþarfa á minnið eins og þessa dagsetningu.

Ég uppgötvaði að úrið var týnt þegar ég ætlaði að taka það upp úr kápuvasanum áður en ég snaraði mér í kennslustund en þar geymi ég úrið yfirleitt á meðan ég syndi morgunsundið mitt. Úrið var, þennan morgunn, ekki í vasanum svo ég þurfti að spóla til baka í huganum og finna út hvar ég hefði sett úrið. Ég gat ekki rifjað neitt upp svo öruggt væri þannig að það var bara tilfinning að ég hefði tapað úrinu þarna um morguninn einhvers staðar við sundlaugina. Fannst einhvern veginn að ég gæti hafa misst það við bíllinn á bílastæðinu. Ég veit varla af hverju ég hafði þessa tilfinningu.

Ég leitaði alls staðar og spurðist fyrir hér og þar og leitaði meira. Í bílnum, heima, í Íþróttamiðstöðinni, á bílastæðinu við Íþróttamiðstöðina og í skólanum. Ég gat ekki hætt að leita. Þetta er nú samt ekkert Rolex, heldur bara úrið mitt.

„Hvað viltu borga fyrir úrið þitt?“ spurði Simmi minn í dag þegar við vorum að leggja af stað í Bónus og vorum að koma okkur fyrir í bílnum.

Það hafði dottið ofan í hliðarvasann á bílhurðinni.

Ég veit núna hvað tímanum líður.


Litla systir

Ég var ráðin í vist þegar ég var níu ára. Það þótti mikil upphefð að vera ráðin í vist. Þá hafði maður einhverjum skyldum að gegna og fékk jafnvel laun fyrir. Mínar skyldur voru þær að passa Rut systur mína. Hún er átta árum yngri en ég, þannig að þegar hún var eins árs var ég  níu ára gömul og treyst fyrir því að keyra litlu systur mína í vagninum og gæta hennar þegar hún hafði sofið lúrinn sinn eftir hádegi.

Venjulega fór ég með hana beina leið á stóra róló. Við vorum sendar með nesti. Mjólk í tómatsósuflösku og brauð í boxi. Það var regla hjá krökkunum að klukkan hálf fjögur settust allir í grasið sem var á afgirtu svæði við hliðina á leikvellinum sjálfum og snæddu nestið sitt. Þegar rigndi var setið við bekki undir skýlinu hjá gæslukonunum.

Þarna var alltaf aragrúi krakka að leika sér og var þetta mikill ævintýraheimur. Gæslukonur voru til staðar allan daginn og var gott að vita af þeim. Þarna voru sandkassar, rólur af mörgum stærðum, vegasölt, bæði há og lág en það  sem var skemmtilegast voru kaðlarnir. Það varð að klifra upp á háa kistu, ná kaðlinum og sveifla sér yfir á kistuna hinum megin.

Við þessa iðju gat ég gleymt mér og barninu sem mér var trúað fyrir.

Einn rigningardaginn komst Rut upp úr vagninum. Hún hlýtur að hafa dottið því vagninn var nokkuð stór. Hún fannst skríðandi í polli, rennandi blaut og illa til reika.

Ég man ekki eftir því að hafa verið skömmuð. En ég man að gallinn hennar var ljósgulur.

Ég varð svo hrædd um hvað hefði getað orðið um litlu systur mína að ég gleymi þessu aldrei.


Minningarbrot

Við eigum enn heima á Selfossi. Ég er líklega  tólf ára.

Mamma var að vinna í sláturhúsinu í Höfn. Hún gerði það stundum á meðan á sláturtíðinni stóð. Jón, frændi, á Velli var hjá okkur í hádegismat. Hann var líka að vinna í sláturhúsinu þetta haust. Þetta var uppgripsvinna fyrir fólk. 

Einn morguninn bað mamma mig um að sjá um hádegismatinn. Það var í fyrsta skipti sem mér var trúað fyrir þessu mikilvæga húsmóðurhlutverki. Venjulega skellti mamma einhverju á borð þegar hún kom heim úr vinnunni en nú átti ég að sjóða ýsu og kartöflur. Ég vandaði mig mjög við þetta og vissi alveg hvaða pott átti að nota undir fiskinn og hvaða pottur var kartöflupotturinn. En þar sem ég er að stússa þarna í eldhúsinu og velta eldamennskunni fyrir mér, finnst mér alveg óþarfi að nota tvo potta. Það átti bara að sjóða hvort tveggja, fiskinn og kartöflurnar. Ég setti kartöflurnar og þverskorna ýsubitana í sama pottinn og var heldur hróðug með þessa frábæru uppgötvun mína. Síðan bræddi ég flot. Það var gert þannig að tólgin var sett í óbrjótandi mjólkurglas og glasið síðan ofan í pottinn hjá fiskinum. Það var mikilvægt að passa sig á að brenna sig ekki þegar glasið var tekið upp úr.

Þegar allir komu heim í hádegismatinn, þennan haustdag, var ég með húsmóðurbros á andlitnu og búin að leggja á borð.

Hugmyndin mín þótti ekki mjög sniðug. Ég hafði ekki þvegið kartöflurnar nógu vel, þannig að fiskurinn var allur í sandi og þótti ekki lystugur.

Ég hef ekki reynt þessa aðferð síðan.


Myndlist ll

Ég er byrjuð á nýju myndlistarnámskeiði. Myndlist ll. Ég er sem sagt í öðrum bekk í teikningu. Það versta er að eftir því sem ég læri meira því vissari verð ég að ég get ekkert teiknað eða málað. Ég vona bara að ég verði fyrir svona áhrifum eins og fólk lendir í sem fer á námskeið hjá Dale Carnegie. Þar er fólk fyrst brotið niður og svo byggt upp aftur.

Mig vantar sjálfstraust og ég þarf að læra miklu meira.

En það er gaman. Rosa gaman.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband