Aldrei of gamall að leika sér

Þegar ég kom heim úr 10 daga ferð um fallega landið mitt, varð ég þess áskynja að ég hafði verið klukkuð. Séra Baldur nefnir mig, ásamt nokkrum öðrum, í sambandi við þennan furðuleik á netinu. Ég hef séð þetta einhvers staðar áður og fundist eins og að þessi leikur sé búinn til handa þeim sem hafa ekkert hugmyndaflug.

En þegar presturinn minn nefnir mig til sögunnar get ég ekki sagt nei. Mér skilst að ég þurfi að nefna átta staðreyndir um sjálfa mig og helst það sem fáir eða enginn veit nú þegar. En þá kom upp vandamál. Ég er alltaf svo sjálfhverf í mínum skrifum og segi öllum allt um mig, þannig að ég á enginn leyndarmál til að upplýsa, og þó, eftir nokkrar vangaveltur fann ég þetta:

1. Ég er haldin óstjórnlegri símafælni. Mér finnst allt í lagi að svara í síma en hræðilega erfitt að hringja. Það er alveg sama í hvern. Það reynir á mig. Ég svitna í lófunum og fæ aukinn hjartslátt ef ég þarf að hringja. Ég er sérfræðingur í að humma fram af mér símtöl.

2. Ég á hallærislegasta "lagið okkar" í heimi. Það er Angelía með Dúmbó og Steina.

3. Ég hef aldrei þolað lagið House of the rising sun. Það er engin sérstök ástæða fyrir því.

4. Mér finnst hundleiðinlegt að synda þó að ég hafi synt á hverjum morgni í nokkur ár, þannig að ég er fegin innst inni að sundlauginni hefur verið lokað í eitt ár.

5. Ég hef þróað með mér ódýran smekk á rauðvínum. Einstöku sinnum kaupi ég "dýrt" rauðvín og undantekningarlaust finnst mér það verra en þessi ódýru sem ég kaupi venjulega.

6. Ég á erfitt með að rata um höfuðborgarsvæðið. Ef ég fer ein á bíl lendi ég eiginlega alltaf í smávandræðum.

7. Ég sá einu sinni svo fallegan mann á flugstöð í Lúxemborg að ef hann hefði gefið mér bendingu um að koma með sér hefði ég gleymt Simma mínum og horfið.

8. Ég féll á landsprófi 1966 en tók fjórða bekk með glans og komst í gegnum Kennaraskólann með ágætum.

Nú á ég að klukka átta menneskjur. Það er búið að klukka flesta sem ég veit að lesa mig þannig að enn lendi ég í vandræðum. En ég get nefnt dóttur mína, Hörpu litlu Guðfinns, Huldu litlu Gunn og Hrönn Guðfinns. Ég nefni Siggu Guðna líka því hún hefur ekki svarað klukki og gaman væri ef Þórdís og Birgitta segðu frá sér. Og hvar ertu Daníel Haukur?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Fyndið. Ég er búin að lesa bloggið þitt frá upphafi, vinna með þér í 18 ár og spjalla næstum daglega við þig öll þau ár. Samt vissi ég ekki þetta með House of the rising sun, Angelíu, sæta manninn í Lux og landsprófsfallið. Þú ert greinilega ekki nærri eins sjálflæg og opin og þú hélst!

Sigþrúður Harðardóttir, 9.8.2007 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband