Hégómi

Ég hef þurft að fórna hégómanum fyrir morgunsundið. Eitthvað verður að láta undan fyrir að rækta skrokkinn. Ég hef sem sagt verið eins og argintæta í skólanum síðan ég byrjaði að synda áður en vinna hefst á morgnana. Það munu vera orðin ein fimm ár síðan, með eins árs hléi.( Þeir lokuðu sundlauginni í eitt ár til þess að rífa hana og byggja nýja.)

Málið er að ég get ekki puntað mig eins og vel og ég vil punta mig áður en ég geng til vinnu minnar. Ég er ekki búin að jafna mig á sundinu þegar ég þarf að greiða mér og mála. Þannig að hárið er eins og á lúðulaka og andlitið eins og á lufsu. Ég hef samt reynt að bera höfuðið hátt og þykjast vera fín. Verst þykja mér förin á augnlokunum eftir sundgleraugun og djúpt farið þvert yfir ennið eftir sundhettuna.

Skítt með smellinn. Ég ætla að synda áfram.

Öskudagur, síðastliðinn, hjálpaði mér ótrúlega mikið með að halda í hégómann. Ég var alveg andlaus með grímubúning svo ég fór bara með morgunsloppinn minn með mér í vinnuna og nokkrar franskar rúllur sem ég skellti í hárið á mér og reyndi svo að tala eins Gréta systir þegar hún er í  stuði . Þarna varð úr mér kellingartuðra, nokkuð morgunlöt en alveg ágæt.Þegar öskudagshúllunhæinu lauk og ég gat farið úr múnderingunni, var ég bara nokkuð fín um hárið, kannski einum of mikil lyfting í því en slapp til.Síðan á öskudag gef ég skellt þeim frönsku í hárið upp í sundlaug, hef þær í mér á meðan ég gúffa í mig morgunkorninu á kaffistofunni, tek þær úr mér og smyr á andlitið smá málningu rétt áður en hringt er inn.

Mér líður miklu betur.

Máluð og greidd.

Það verður líka að rækta hégómann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sérðu, þú ert ennþá að læra og tileinka þér nýja siði! Ég fór að nota sundgleraugu þegar ég var orðin leið á að vera rauðeygð, förin eru betri.

Eirný (IP-tala skráð) 6.3.2009 kl. 16:00

2 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Lífið snýst um að velja og hafna........

Guðrún S Sigurðardóttir, 6.3.2009 kl. 20:45

3 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

æði,-æði...

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 8.3.2009 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband