Ilman, lykt og fýla

Ég þegi alltaf og passa mig á því að segja ekki orð þegar samferðafólk mitt, hér í þessu plássi, talar um fýluna sem hér hangir yfir okkur öðru hverju. Fýlu sem kemur frá vissum fyrirtækjum. Ýldufýlu. Ég þegi vegna þess að fýlan eða lyktin hefur aldrei farið í taugarnar á mér. Ég virðist ekki finna þessa ógeðslegu fýlu sem hinir finna. Hún ku vera svo megn að fólk og jafnvel fyrirtæki hafa hætt við að setjast hér að vegna hennar. Ég kannast við að hafa fundið vonda lykt en það er ekkert sem ég get ekki búið við. Fólk talar um að það geti ekki opnað glugga í vissri átt og ekki hengt þvottinn sinn út á snúru svo megn sé þessi viðbjóður. Ég var um tíma að reyna að vera á móti fólki sem talaði um fýluna en ég reyni það ekki lengur.

Ég hef nefnilega persónulega svipað vandamál við að etja. Það tengist lykt en ekki fýlu heldur ilman.

Ég held að ég hafi ofnæmi fyrir ilmvatni og rakspíra. Ég hef ekki farið í ofnæmispróf eða rætt þetta við lækni. Ég bara finn þetta á mér. Það er þannig að ef ég anda að mér lykt frá ilmvatni eða rakspíra þá gerist eitthvað í hálsinum á mér þannig að ég missi röddina og finnst erfitt að anda. Ég reyni að koma mér afsíðis þegar þetta kemur fyrir en það er ekki alltaf hægt.

Ég bað söngfélaga mína í kórnum að taka þetta til greina á æfingum og hætta að "spreyja" sig fyrir æfingar (ég veit að ég er leiðinleg). Annaðhvort hefur einhver ekki tekið tillit til þessarar sérvisku í mér á síðustu æfingu eða það er eitthvað annað að hrjá mig. Ég fékk stíflu í hálsinn og þá er ekki gott að syngja.

Ég hélt í dag að ég yrði að hlaupa út úr leikfimistíma. Ég lét það bara ekki eftir mér því ég vildi ekki vekja eftirtekt. En ég átti mjög bágt með að anda því einhver kom með ilmvatnsský með sér  í tíma.

Sem sagt ef ég persónulega mætti velja, þá veldi ég ýldyfýluna því hún fer ekki í hálsinn á mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þekki þetta með ilmvatnið. Á við sama vandamál að stríða.

Magnþóra (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 16:22

2 identicon

Sæl frænka,

þetta vandamál þekki ég :( Ég meira að segja verð að sitja afsíðis í vinnunni út af þessu. Ég fæ kláða í hálsinn, augun og nefið, hnerra eins og vitleysingur og hósta þurrum hósta. Ferlega fúlt. Þetta fer samt svolítið eftir veðráttunni, ég er harla góð í svona vætutíð. Mér finnst rigningin góóóð!

En þegar ég fer á mannamót bjargar Histasín mér. Það er hægt að fá það án lyfseðils í apótekinu.

Kristín Helga (og Þórudóttir) (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 00:51

3 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Takk, frænka, fyrir ábendinguna. Gaman að hitta þig hér. Ég er búin að prófa eina tegund af lyfi án árangurs nema ég hafi ekki gefið því nægan sjens. Gæti verið, tók bara eina pillu og fékk samt kast, ætti kannski ekki að gefast upp.

Guðrún S Sigurðardóttir, 21.11.2007 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband