Amma á Velli

Í Dagskránni ,sem kom út á fimmtudaginn, var lítil grein um systkinin frá Syðra Velli í Flóa. Þar kemur fram að um áramótin hafi þau sameiginlega náð því að vera 1080 ára gömul og fimm mánuðum betur. Blaðamaðurinn vill gjarnan fá að vita af því ef nokkur veit af eldri systkinahópi.

Ég hef alltaf verið stolt af því hvað pabbi minn kemur úr stórum systkinahópi og segi frá hvenær sem ég get að amma mín hafi eignast 16 börn á tuttugu árum. Aðeins einn drengur dó í barnæsku. Öll hin komust til fullorðins ára.  Tveir bræður eru látnir, þeir Gísli og Ólafur. Ég hef alltaf gaman að því að heyra sögur frá Velli, frá þeim tíma er flest börnin voru heima. Einhvern tíma heyrði ég að gestkomandi maður hafi fundist það eftirtektarvert hversu mörg börn voru á bænum en enginn hávaði og læti þrátt fyrir að þau voru að leika sér í kringum fullorðna fólkið. Þau skutust til og frá án nokkurs hávaða. Þannig eru þau enn, það er ekki hávaði í kringum hann pabba minn eða systkini hans. Ég held að það sé hægt að lýsa systkinunum sameiginlega þannig að þau eru afskaplega vel gerð, dagsfarsprúð, hæglát og hógvær, alvarleg en mjög stutt í skemmtilega kímni. Flest ef ekki öll gædd listrænum hæfileikum.

Frægt er innan fjölskyldunnar þegar amma ætlaði að biðja Soffíu um eitthvert viðvik en hitti ekki á Sofffíunafnið fyrr en í þriðju tilaun. Hún kallað:" Óla, Finna, Fía." Það er enn grínast með þetta, alla vega í pabba ættlegg, þegar einhver man ekki nöfn eða mismælir sig.

Það var alltaf ævintýri að fara í heimsókn til ömmu og afa á Velli. Þarna var svo mikið af dýrum til að skoða og amma bakaði heimsins bestu ástarpunga. Ég man samt hvað við krakkarnir vorum hræddir við álftina sem bjó um tíma hjá þeim því hún var svo grimm. Þessi álft varð fréttaefni í Mogganum þegar hún dó. Hún flaug á rafmagnsvír sem varð henni að aldurtila.

Amma sagði skemmtilega frá og ég, sem krakki,  fékk aldrei nóg af því að hlusta á hana fara með ljóðabálkinn En hvað það var skrýtið.

Amma mín, Margrét Steinsdóttir, var fædd 17. maí 1890.  Hún giftist árið 1914 honum afa sem hét Ólafur Sveinn Sveinsson. Hann var fæddur 15. janúar 1889. Amma kemur úr fimm barna systkinahópi en afi var einbirni sem var sjaldgæft á þessum tíma.  Sama ár og þau giftust fæddist Sigursteinn og síðan komu börnin hvert af öðru. Guðrún, Sveinbjörn, Ólafur, Ingvar, Gísli, Ólöf, Guðfinna, Krisján, Soffía, Margrét, Sigurður, (pabbi) Gísli, Aðalheiður, Jón og Ágúst Helgi.

Myndin sem er hér að neðan er uppáhaldsmyndin mín af ömmu. Hún hefur eignast 11 börn og eru þau öll með henni á myndinni. Hún heldur á Möggu sem fæddist 1925 og næstur í röðinni er pabbi en hann fæddist ekki fyrr en 1928. Amma fékk þarna þriggja ára barnseignarfrí sem var lengsta hléið hennar í barnseignum á tuttugu ára tímabili.235 Soffía,Guðrún,Sveinbjörn,Margrét,Margrét,Sigursteinn,Ingvar,Ólafur,Ólöf,Guðfinna,Kristján myndinnvar tekin 1925

Amma og afi eiga dágóðan hóp afkomenda. Ég hef bara ekki nýjustu tölur núna svo ég læt vera að giska á  hve hópurinn er orðinn stór.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Þetta var skemmtilegur pistill. Ég tók eftir myndinni og greininni í Dagskránni...vissi td. ekki að hún Alla á Skólavöllunum væri ein af þessum systkinum.

Um margt er bakgrunnur okkar líkur. Amma mín Jónína var líka fædd 1890. Hún eignaðist 14 börn á 19 árum og ól þau upp í sveit við býsna þröngan kost á stundum.

Minningarnar um heimsóknir mínar á Hvítárbakka í bernsku eru  líka afskaplega ljúfar og kleinurnar og pönnukökurnar hennar ömmu þær allra bestu. Þá var alltaf nóg að borða þó enn fái ég að heyra af því þegar við vorum á heimleið eftir að hafa borðað og drukkið allan daginn við eldhúsborðið á Hvítárbakka. Ég mun hafa verið 5 ára  og eitthvað súr á svip. Amma spurði mig hvort ekki væri allt í lagi. Ég var snögg upp á lagið og svaraði: ,, Nei...ég er bæði svöng og þyrst". Sumir vilja meina að ég sé alltaf svöng og þyrst.

Sigþrúður Harðardóttir, 28.1.2007 kl. 00:14

2 Smámynd: Sigríður Guðnadóttir

Ég tek undir með Sissu, mjög skemmtilegur pistill.

Sigríður Guðnadóttir, 28.1.2007 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband