Inn fjörð og út fjörð

Fyrir rúmum 10 árum fluttum við, gamli minn, á bláókunnugan stað í bláókunnugum landsfjórungi og fórum að reka gistiheimili. Við skiptum á sléttu á húsinu okkar og 130 ára gömlu húsi við fallegan fjörð fyrir austan. Vinur okkar einn sagði fyrir austan hníf og gaffal.

Ég hef aldrei verið hrifin af gömlum húsum nema úr fjarlægð. Þoli illa rifur og skúmaskot sem safna ryki og alls ekki utanáliggjandi rafmagnssnúrur. Þetta gamla hús var einmitt þannig. Spor löngu genginna manna voru alls staðar í húsinu. Þröskuldar báru þess merki að margir hefðu gengið um þá og meira að segja voru göt eftir mýs milli stafs og hurðar, svona eins og kindargötur myndast í móa.

Gamli minn segir að ég hafi gengið hokin fyrsta mánuðinn og ekki snert á neinu. Ég gætti þess að vera í miðjunni svo að ég kæmi ekki við neitt. Ég held að hann ýki aðeins. En ég vissi ekki hvernig ætti að reka gistiheimili og ekki hann heldur.

Fyrsta daginn okkar þarna ákvað gamli minn að taka til og henda rusli. Þá var enn sá siður viðhafður að fara með sorp í brennsluofn út með firði. Í einni ferðinni hringdi hann í mig og sagðist vera að deyja, hann væri allavega að líða út af og væri mjög skrýtinn. Ég hljóp út í bensínstöðina við hliðina og bað um að einhver keyrði mig að brennsluofninum því maðurinn minn væri þar í vandræðum. Ég gat ekki hugsað skýrt en gleymi aldrei þegar góðhjartaði maðurinn, sem vann á bensínstöðinni, sagði þegar við vorum að keyra út fjörðinn: "Það er ekki alltaf svona mikil þoka hérna." Ég hafði ekkert tekið eftir því hvort það væri þoka eða ekki. Annaðhvort var maðurinn að róa mig eða hann vildi leiðrétta misskilninginn með Austfjarðaþokuna.

Maðurinn hjálpaði mér að koma gamla mínum heim og þá tók við nýtt streitukast. Læknar höfðu byrjað í verkfalli þá um morguninn. Okkur var ráðlagt að tala við ákveðna mannesku á staðnum sem kom í sjúkravitun. Hún reyndist vera ljósmóðir að mennt en sjúkdómsgreindi hinn dauðvona mann hárrétt. Streita sem orsakaði aukin hjartslátt og hún sagði honum að taka þetta sem viðvörun og fara vel með sig.

Svo fórum við að reka gistiheimili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Djö...hefur Mogginn sterk ítök í manni...ég kíki alltaf í hann á morgnana og svo erum ég og þú farnar að blogga undir hans verndarvæng. Hvað er eiginlega að gerast????

Velkomin á Moggann

Sigþrúður Harðardóttir, 22.1.2007 kl. 21:50

2 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Ég er búin að vera ansi treg í taumi....en neyðin kennir naktri og allt það. Ég ætla ekki að hugsa um Moggann sem verndarvænginn minn heldur ætla ég að fá út úr honum það sem mig langar og hana nú!

Guðrún S Sigurðardóttir, 22.1.2007 kl. 22:31

3 identicon

Var einmitt að hugsa,- hvurskonar Moggaæði þetta væri í ykkur í Þorlákshöfn !!  Gott að þið eruð ekki að fara til frænda vorra í Færeyjum...tíhí

en inneftir og úteftir fer ég alltaf,- og uppeftir og niðureftir,- þarf að búa við ósköp leiðinlegt mál hér...norður-suður og allt það!!!

ÞHelga (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 23:11

4 identicon

Var einmitt að hugsa,- hvurskonar Moggaæði þetta væri í ykkur í Þorlákshöfn !!  Gott að þið eruð ekki að fara til frænda vorra í Færeyjum...tíhí

en inneftir og úteftir fer ég alltaf,- og uppeftir og niðureftir,- þarf að búa við ósköp leiðinlegt mál hér...norður-suður og allt það!!!

og gjörsamlega óþolandi þetta kommentakerfi hér,- fara og staðfesta í póstinum sínum,- bölvuð vitleysa,- þetta þýðir bara að ég amk nenni miklu sjaldnar að kommenta :( og ykkur sem finnst svo gaman að kommentunum mínum

ÞHelga (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 23:13

5 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Ég keypti Moggann ekki í nokkra mánuði á síðasta ári og ég var alveg ómöguleg manneskja. Fannst alltaf eitthvað vanta í líf mitt. Samt er hann ekki málgagnið mitt heldur bara eitthvað til að fletta og skoða.....og ráða sunnuudagskrossgátu í.

Guðrún S Sigurðardóttir, 23.1.2007 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband